Valorie O’Brien ráðin þjálfari Selfoss

Valorie O’Brien hefur verið ráðin þjálfari kvennaliðs Selfoss í knattspyrnu til næstu tveggja ára. Valorie er 26 ára gömul, fyrrum leikmaður liðsins.

Valorie er alls ekki ókunnug Selfossliðinu því hún lék með því í Pepsi-deildinni tímabilin 2012 og 2013. Síðan þá hefur hún aflað sér aukinnar reynslu í Bandaríkjunum, sem þjálfari og leikmaður en hún er með mastersgráðu í íþrótta- og leiðtogafræðum. Hún verður ekki spilandi þjálfari á Selfossi heldur mun hún einbeita sér að þjálfun liðsins.

„Þetta er frábært tækifæri fyrir mig, að fá að þjálfa hjá þessu félagi sem ég ber svo mikla virðingu fyrir. Þar fyrir utan hef ég saknað fólksins sem ég kynntist á Selfossi og er mjög spennt fyrir því að hitta alla aftur. Ég hlakka mikið til þess að taka upp þráðinn á nýjan leik á Selfossi,“ sagði Valorie í samtali við sunnlenska.is.

„Ég bý vel að því að hafa kynnst Pepsi-deildinni sem leikmaður og veit við hverju er að búast varðandi leikstíl liðanna. Hvað Selfossliðið varðar þá hefur það vaxið gríðarlega síðan ég var þar síðast, bæði leikmennirnir og félagið sjálft. Það er búið að vera mjög skemmtilegt að fylgjast með þeirri þróun úr fjarlægð og það gerir mig ennþá spenntari fyrir því að verða hluti af félaginu aftur,“ sagði Valorie ennfremur.

„Á meðan ég var í burtu þá var ég svo heppin að geta aflað mér dýrmætrar reynslu sem þjálfari og leikmaður. Ég vona að ég geti nýtt mér þá reynslu til þess að koma með nýjar víddir í starfið á Selfossi sem mun hjálpa liðinu til þess að þróast enn frekar. Ég er mjög spennt fyrir því að hefja þetta ferðalag og ég veit að það verður skemmtileg áskorun og eflaust einnig mjög gefandi,“ sagði Valorie að lokum.

Að sögn Gunnars Rafns Borgþórssonar, yfirmanns knattspyrnumála hjá Selfossi, og fráfarandi þjálfara kvennaliðsins er Valorie gríðarlegur karakter sem kemur til með að drífa áfram og efla enn frekar gott starf Selfoss undanfarin ár.

Fyrri greinÁsókn í að komast í Miðjuna
Næsta greinPACTA Lögmenn í samstarf við Krabbameinsfélag Árnessýslu