Bogfimikonan Valgerður Einarsdóttir Hjaltested, frá Hæli í Hreppum, var í landsliði Íslands sem vann bronsverðlaun í berboga í liðakeppni kvenna á Evrópumeistaramótinu innandyra í síðustu viku.
Mótið var haldið í Samsun í Tyrklandi í einni flottustu bogfimiþjóðarhöll sem fyrirfinnst í Evrópu.
Þetta eru fyrstu verðlaunin sem Valgerður vinnur á Evrópumeistaramóti í meistaraflokki og í fyrsta skipti sem Ísland kemst á verðlaunapall á EM í berboga meistaraflokki.
Íslenska berboga liðið tók bronsið í æsispennandi úrslitaleik gegn heimaþjóðinni Tyrklandi. Ísland komst í 4-0 en Tyrkir náðu að jafna leikinn 4-4 og knýja fram bráðabana.
Bráðabaninn endaði 21-21 og því þurfti að mæla hvort liðið ætti örina sem væri nær miðju til þess að ákvarða sigurvegara leiksins. Þá ör áttu Íslendingar og Valgerður og félagar tóku því bronsið. Með Valgerði í liðinu voru Guðbjörg Reynisdóttir og Astrid Daxböck.

Í 5. sæti með sveigboga
Vala keppti bæði í berboga- og sveigbogaflokki á Evrópumeistaramótinu. Í liðakeppni sveigboga var Ísland slegið út í 8-liða úrslitum á móti Moldóvu og enduðu þær að lokum í 5. sæti.
Í einstaklingskeppni endaði Vala í 9. sæti í berboga eftir að hafa verið slegin út í 16-manna úrslitum af Giulia Mantilli frá Ítalíu. Í einstaklingskeppni með sveigboga var Vala slegin út af Elisabeth Straka frá Austurríki í 32-manna úrslitum.
Vala segist mjög ánægð með bronsverðlaunin með berboga liðinu, sem voru mjög óvænt þar sem tyrkneska liðið var talið sigurstranglegra í leiknum. Vala er einnig starfsmaður Bogfimisambands Íslands og var annar fararstjóra á mótinu og því í mörg horn að líta hjá henni í þessari ferð.