Bogfimikonan Valgerður Hjaltested vann sinn sjötta Íslandsmeistaratitil í röð í sveigboga kvenna á Íslandsmeistaramótinu 2025 í Þorlákshöfn um helgina.
Valgerður hefur sigrað á öllum Íslandsmeistaramótum, innanhúss og utanhúss, síðustu þrjú ár og með árangri sínum á heimavelli í Þorlákshöfn um helgina er hún orðin sigursælasta sveigbogakona landsins. Þetta er magnaður árangur í ljósi þess að styrkur andstæðinga hennar er töluverður og úrslitaleikirnir hafa margir hverjir verið gríðarlega jafnir og spennandi.
Eins og oft áður var andstæðingur Valgerðar liðsfélagi hennar, Marín Aníta Hilmarsdóttir, en þetta er í níunda skiptið á síðustu tíu árum sem þær mætast í úrslitaleik. Valgerður komst í 4-0 áður en Marín svaraði fyrir sig en Valgerður tók svo fjórðu lotuna eftir æsispennandi keppni og sigraði 6-2.
Valgerður vann einnig brons í keppni um titilinn óháð kyni með 6-2 sigri á liðfélaga sínu Ragnari Þór Hafsteinssyni. Valgerður, Ragnar og Marín sigruðu síðan í félagsliðakeppninni, þar sem þau unnu öruggan 6-0 sigur. Þremenningarnir hafa unnið alla Íslandsmeistaratitla félagsliða fyrir BF Bogann síðustu fjögur ár, frá því að byrjað var að keppa í blönduðum liðum.
