Valgerður tryggði Íslandi sæti á Evrópuleikunum í sumar

Valgerður setur saman bogann á fyrsta degi Evrópubikarmótsins. Ljósmynd/Bogfimisamband Íslands

Bogfimikonan Valgerður E. Hjaltested frá Hæli í Hreppum varð í 4. sæti í undankeppni Evrópuleikanna og tryggði Íslandi þar með þáttökurétt á leikunum sem fara fram í Póllandi í sumar.

Undankeppnin var haldin í gær í Lilleshall í Englandi, samhliða Evrópubikarmótinu, fyrir þær þjóðir sem ekki höfðu þegar tryggt sér þátttökurétt á Evrópuleikunum. Valgerður er ein af mjög fáum Íslendingum sem hafa náð því afreki að vinna þátttökurétt á Evrópuleika fyrir Íslands hönd.

Keppnin var útsláttarkeppni og í leið sinni í undanúrslitin sló Valgerður út keppendur frá Ísrael, Portúgal og Svíþjóð. Hún beið svo lægri hlut í undanúrslitum gegn keppanda frá Sviss og mætti öðrum Svisslendingi í brons úrslitaleiknum. Sú svissneska sigraði 6-2 og Valgerður þar með í 4. sæti, sem tryggði Íslandi sæti á Evrópuleikunum.

Þó er óvíst hvort Valgerður verði fulltrúi Íslands á Evrópuleikunum þar sem hún hefur ekki formlega náð lágmarksviðmiðum utandyra fyrir mótið. Það mun skýrast fljótlega hver keppandi Íslands verður en Evrópuleikarnir fara fram í Kraków-Malopolska í Póllandi 21. júní til 2. júlí.

Bogfimisamband Íslands keppti einnig um þátttökurétt í liðakeppni Evrópuleikanna en Valgerður og liðsfélagar hennar voru slegnar út af Hollandi í 16 liða úrslitum.

Fyrri greinDagný tók fram úr Hólmfríði
Næsta greinÞórsarar svöruðu fyrir sig