Valgerður þrefaldur Íslandsmeistari með „ör“ litlum mun

Valgerður Einarsdóttir Hjaltested. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Valgerður Einarsdóttir Hjaltested frá Hæli í Hreppum lék á als oddi í Boganum í Kópavogi um helgina þegar Íslandsmeistaramótið í bogfimi fór þar fram.

Valgerður varð þrefaldur Íslandsmeistari en hún vann titilinn bæði í kvennaflokki og í flokki óháðum kyni með ör-litlum mun í tveimur spennandi úrslitaleikjum. Auk þess tók hún Íslandsmeistaratitilinn með félagsliði sínu.

Í kvennaflokknum mættust Valgerður og Marín Aníta Hilmarsdóttir liðsfélagi hennar og vinur úr Boganum. Úr varð æsispennandi hörkubardagi um gullið, eftir fyrstu fjórar loturnar voru þær jafnar 4-4 og síðasta lotan eftir. Þar var allt útlit fyrir að lotan myndi enda í jafntefli og bráðabana. En eftir að dómarinn hafði dæmt örvarnar sem var vafi um í síðustu umferðinni endaði Valgerður einu stigi ríkari og tók því Íslandsmeistaratitilinn í sveigboga kvenna 6-4.

Spennan var ekki minni í úrslitaleiknum óháðum kyni þar sem Valgerður mætti liðsfélaga sínum úr Boganum, Ragnari Þór Hafsteinssyni. Úrslitaleikurinn endaði 5-5 og þurfti því bráðabana ör til þess að ákvarða hvort þeirra myndi sigra. Nær miðju vinnur, Ragnar skaut 7 og Vala skaut 9 og fagnaði sigri.

Valgerður vann einnig Íslandsmeistaratitilinn í félagsliðakeppni sveigboga á mótinu, en í liði Bogans með henni voru einmitt andstæðingar Völu um einstaklingstitlana, þau Marín og Ragnar. Þau sigruðu B-lið Bogans í úrslitaleiknum og ÍF Akur tók bronsið.

Fyrri greinSelfyssingar öflugir á Góumóti JR
Næsta greinMAST sektar bú á Suðurlandi vegna hirðuleysis