Valgerður í 9. sæti á EM

Valgerður (til vinstri) ásamt liðsfélögum sínum, þeim Marín Anítu og Höllu Sól. Ljósmynd/Bogfimisamband Íslands

Valgerður Einarsdóttir Hjaltested, BF Boganum í Kópavogi, endaði í 9. sæti á Evrópumeistaramóti ungmenna í bogfimi í Lilleshall Bretlandi í gær.

Valgerður keppti með sveigboga-kvennalandsliðinu ásamt Höllu Sól Þorbjörnsdóttir og Marín Anítu Hilmarsdóttir, einnig úr BF Boganum. Stelpurnar töpuðu 6-0 gegn Austurríki í 16-liða úrslitum og enduðu því í 9. sæti.

Þær gerðu sér einnig lítið fyrir og náðu að slá bæði fullorðins og U21 landsliðsmet í undankeppni mótsins, með skori upp á 1.581 en hæsta skor sem Ísland hafði áður náð var 1.526.

Valgerður keppti einnig í einstaklingskeppni Evrópumeistaramótsins, þar sem hún var í 41. sæti í undankeppninni og mætti Lucia Ibanez Romero frá Spáni í fyrsta útslætti í lokakeppni mótsins. Sú spænska sigraði þar að lokum 6-2, í mjög jöfnum leik, þannig að Valgerður endaði í 33. sæti einstaklingskeppninnar.

Fyrri greinÓskalög við orgelið í kvöld
Næsta greinSelfoss bara með í seinni hálfleik