Valgerður hársbreidd frá bronsinu á EM

Valgerður á mótinu í Króatíu. Ljósmynd/Bogfimisamband Íslands

Valgerður Einarsdóttir Hjaltested frá Hæli í Hreppum var ein af fulltrúum Íslands á Evrópumeistaramótinu innandyra í bogfimi sem haldið lauk í Varazdin í Króatíu um helgina.

Valgerður, sem keppir fyrir BFB Kópavogi, lauk keppni í 4. sæti í liðakeppni í sveigboga og 9. sæti í einstaklingskeppninni. Liðakeppnin var einstaklega spennandi en íslenska liðið var hársbreidd frá bronsverðlaunum eftir úrslitaleik gegn Moldóvu. Leiknum lauk með 4-4 jafntefli og hrepptu Moldóvar bronsið á síðustu örinni í bráðabana. Fjórða sætið er besti árangur Íslands á Evrópumóti í sveigboga kvenna.

Brons úrslitaleiknum var streymt í beinni og hægt að sjá hann hér fyrir neðan.

Komst beint í 16-manna úrslit
Í einstaklingskeppninni skoraði Valgerður nægilega hátt til þess að sitja hjá í fyrstu leikjunum og fara beint í 16-manna úrslit. Þar var hún slegin út af Denisa Barankova frá Slóvakíu. Barankova sigraði 6-0 og Valgerður endaði því í 9. sæti.

Alls kepptu 34 íslenskir keppendur á mótinu og ellefu íslensk lið voru skráð til keppni í undankeppni mótins. Þetta er stærsti hópur Íslands sem farið hefur á EM og árangurinn var frábær; ein bronsverðlaun í kvennaflokki og ein gullverðlaun, tvenn silfurverðlaun og ein bronsverðlaun í U21 flokki.

Nánari upplýsingar um gengi annarra keppenda Íslands á EM er hægt að finna í fréttum á archery.is og bogfimi.is.

Fyrri greinSteinunn og Vala lesa upp úr verkum sínum
Næsta greinFyrirmyndar frammistaða á GK-móti