Útskriftarhóf hjá Sleipni

Í gærkvöld var haldið útskriftarhóf í Hliðskjálf á Selfossi þar sem nemendum af öllum reiðnámskeiðum Sleipnis í vetur voru afhent viðurkenningarskjöl.

Sextán börn sóttu reiðnámskeið fyrir minna vana annars vegar og meira vana hins vegar. Vornámskeið (leikur og lærdómur) sóttu 24 börn. Keppnisnámskeið sóttu 14 börn og unglingar auk þess sem 22 unglingar útskrifuðust í knapamerkjaprófum, 11 með grænt merki og 11 með gult en skemmst er frá að segja að allir náðu sínu prófi. Veittar voru viðurkenningar og gjafabréf til þeirra sem sköruðu fram úr í knapamerkjaprófum í vetur og vor en þau voru:

Elsa Margrét Jónasdóttir sem hlaut í aðaleinkunn 9,45 í grænu merki
Sigríður Óladóttir sem hlaut 9,5 í aðaleinkunn í gulu merki og
Ingi Björn Leifsson sem hlaut 9,4 í aðaleinkunn í gulu merki.

Eins og nærri má geta var Hliðskjálf full af fólki, setið á hverjum stól og nokkrir sátu á gólfinu. Mikið fjör var hjá krökkunum sem voru að vonum ánægð með árangur vetrarins sem hefur verið viðburðarríkur og skemmtilegur. Um 30 börn úr Sleipni tóku þátt í Hestafjöri 2011 sem heppnaðist mjög vel og stóðu sig þar allir vel, bæði pollahópur og munsturreiðarhóparnir okkar sem voru tveir.

Reiðkennarar í vetur voru Hugrún Jóhannsdóttir sem vann seinni hlutann með hópinn í gulu merki, Vornámskeiðið og keppnisnámskeiðið auk þess sem hún þjálfaði og undirbjó Hestafjörshópana. Þorvaldur Árni Þorvaldsson sem kenndi hópum á reiðnámskeiðum fyrir minna vana, meira vana, grænt knapamerki og fyrri hluta þjálfunar á hópnum í gulu knapamerki auk undirbúnings fyrir þá sem þreyttu stöðupróf. Oddný Lára Guðnadóttir sá um bóklega kennslu í knapamerkjum í vetur.

Æskulýðsnefnd bauð upp á kaffi, gos og kakó en foreldrar mættu með viðurgjörning á hlaðborð sem útskriftargestir gæddu sér á í lokin.

Fyrri grein200 gestir í afmælisveislu
Næsta greinSelfoss áfram í bikarnum