Útlitið svart hjá Uppsveitum – Árborg með sterkt stig

Sigurjón Reynisson skoraði fyrir Uppsveitir. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Uppsveitir eru í slæmum málum á botni 4. deildar karla í knattspyrnu eftir tap gegn Skallagrími í kvöld. Á sama tíma skildu Árborg og KFK jöfn í toppbaráttunni.

Sigurjón Reynisson kom Uppsveitum yfir strax á 5. mínútu í leiknum gegn Skallagrími á Flúðum. Alejandro Serralvo jafnaði á 16. mínútu fyrir gestina og í kjölfarið fylgdu mörk frá Sölva Snorrasyni og Hrafnkeli Vála Valgarðssyni, þannig að staðan var 1-3 í leikhléi. Uppsveitir mættu af krafti inn í seinni hálfleikinn og Pétur Geir Ómarsson breytti stöðunni í 2-3 með glæsimarki strax á 50. mínútu. En vonir ÍBU dvínuðu á 73. mínútu þegar Sölvi bætti við öðru marki sínu fyrir Skallagrím og reyndist það síðasta mark leiksins. Lokatölur 2-4.

Í Fagralundi í Kópavogi mættust liðin í 2. og 3. sæti, Árborg og KFK. Heimamenn byrjuðu betur og Lassana Drame kom þeim í forystu strax á 7. mínútu. Um miðjan fyrri hálfleikinn jafnaði nýliðinn Elfar Ísak Halldórsson fyrir Árborg og staðan var 1-1 í leikhléi. Bæði lið gerðu áhlaup í seinni hálfleiknum og áttu fínar sóknir en mörkin urðu ekki fleiri og stigunum var skipt bróðurlega á milli liðanna, 1-1.

Staðan í 4. deildinni er þannig að Árborg er í 2. sæti með 27 stig, í harðri baráttu við Vængi Júpíters og KFK sem eru með 29 og 26 stig. Staða Uppsveita er hins vegar slæm. Liðið er með 3 stig á botninum og þarf kraftaverk til þess að bjarga sér frá falli, nú þegar fimm umferðir eru eftir af deildinni.

Önnur úrslit í 13. umferð 4. deildarinnar:

Vængir Júpíters 1 – 1 KÁ
1-0 Jónas Breki Svavarsson (‘24)
1-1 Þórir Eiðsson (’40)

Fyrri greinReykur í Hveradölum
Næsta greinÞórsarar fengu efsta mann á óskalistanum