„Útlitið er orðið svart“

Björn Sigurbjörnsson, þjálfari Selfoss. Ljósmynd: fotbolti.net/Hafliði Breiðfjörð

Kvennalið Selfoss tapaði 1-2 þegar Þór/KA kom í heimsókn á Selfoss í Bestu deildinni í knattspyrnu í dag.

„Útlitið er orðið svart. Við verðum bara að reyna að sjá ein­hverj­ar fram­far­ir í okk­ar leik, sem við get­um byggt ofan á. Það eru bún­ar að vera of litl­ar fram­far­ir und­an­farn­ar um­ferðir. Í dag var samt ork­an góð, við vor­um að reyna að berj­ast sem ein­ing og það er eitt­hvað sem ég tek með mér úr þess­um leik,“ sagði Björn Sigurbjörnsson, þjálfari Selfoss, í samtali við sunnlenska.is eftir leik.

Mark eftir 22 sekúndur
Selfoss byrjaði með boltann, missti hann, Þór brunaði fram og skoraði, 0-1 eftir 22 sekúndur. Sannarlega áfall fyrir botnlið Selfoss sem náði ekki upp neinu spili fyrsta hálftímann.

Á 32. mínútu fengu Selfyssingar hornspyrnu og Áslaug Dóra Sigurbjörnsdóttir náði að moka boltanum í netið af mjög stuttu færi. Selfyssingar hresstust við jöfnunarmarkið en urðu fyrir áfalli tíu mínútum síðar þegar Katla María Þórðardóttir fékk rautt spjald fyrir að sparka í andstæðing þegar boltinn var ekki nálægt.

Börðust vel manni færri
Manni færri þurfu Selfyssingar að verjast allan seinni hálfleikinn og treysta á skyndisóknir. Þær stóðu sig vel í því og Idun-Kristine Jörgensen var frábær í markinu. Henni tókst þó ekki að koma í veg fyrir sigurmark Þórs/KA á 65. mínútu.

Selfyssingar lögðu ekki árar í bát og á síðustu tíu mínútunum voru þær mun líklegri til að jafna heldur en gestirnir að auka forskotið.

Það tókst þó ekki og Selfossliðið er niðurnjörvað á botninum með 11 stig þegar fjórir leikir eru eftir.

Fyrri greinÖruggur sigur í lokaumferðinni
Næsta greinAllt í járnum fyrir lokasprettinn