Útlitið svart hjá Selfyssingum

Selfyssingar töpuðu 4-2 fyrir Stjörnunni þegar liðin mættust á gervigrasinu í Garðabæ í Pepsi-deild karla í knattspyrnu í dag.

Stjörnumenn voru mun sterkari aðilinn í leiknum og var sigur þeirra fyllilega sanngjarn. Á sama tíma lagði Fram Skagamenn 0-1 á Akranesi og því hefur Fram þriggja stiga forskot á Selfoss fyrir lokaumferðina. Markahlutfall Framara er betra svo munar sex mörkum. Selfyssingar þurfa því að leggja Skagamenn í lokaumferðinni með nokkurra marka mun og treysta á að ÍBV leggi Framara á útivelli með nokkrum mörkum til viðbótar.

Bæði lið fengu færi á upphafsmínútum leiksins í dag en það voru Selfyssingar sem voru fyrri til að skora. Einn Stjörnumanna fékk boltann upp í höndina í vítateignum á 17. mínútu og Selfyssingar fengu vítaspyrnu sem Viðar Kjartansson afgreiddi í netið.

Stjarnan jafnaði metin með marki úr aukaspyrnu á 24. mínútu og heimamenn komust svo yfir tíu mínútum síðar þegar vörn Selfoss galopnaðist eftir að brotið hafði verið á Bernard Brons úti á kanti en ekkert dæmt.

Jon Andre Röyrane nýtti síðustu spyrnu fyrri hálfleiks til þess að jafna 2-2 eftir að Viðar hafði skallað boltann innfyrir vörn Stjörnunnar þar sem Röyrane var á auðum sjó.

Stjörnumenn voru sterkari í síðari hálfleik og bættu við tveimur mörkum á 61. og 72. mínútu. Selfyssingar áttu reyndar ágæt færi inn á milli en tókst ekki að koma boltanum í netið.

Fyrri greinÁhugasamir um rekstur líkamsræktarstöðvar
Næsta greinHamar lá í Hólminum