Útlitið svart hjá Hamri

Hamar er í bullandi fallhættu eftir tap á heimavelli gegn ÍR, 90-103, í Iceland Express-deild karla í körfubolta kvöld.

Leikurinn var jafn í fyrri hálfleik en þegar leið að leikhléi náðu ÍR-ingar forskoti og leiddu í hálfleik, 43-47.

Þriðji leikhluti var skelfilegur hjá Hamri og ÍR náði 20 stiga forskoti, 55-75, undir lok leikhlutans. Hamar klóraði í bakkann í 4. leikhluta og þegar fjórar mínútur voru eftir var spenna hlaupin í leikin í stöðunni 76-85. Þá var bensínið búið á tanknum hjá Hamri og eftirleikurinn var auðveldur fyrir ÍR.

Devin Sweetney var stigahæstur hjá Hamri þrátt fyrir skelfilegan leik. Sweetney skoraði 23 stig, þar af 11 í síðasta fjórðungnum. Darri Hilmarsson skoraði 20 stig og Svavar Páll Pálsson 16.

Ætli Hamar sér að halda sæti sínu í deildinni þá þurfa þeir að leggja Snæfell og Stjörnuna að velli og treysta á að Tindastóll eða Fjölnir tapi báðum leikjunum sem þeir eiga eftir.

Fyrri greinLoksins sigur hjá Selfossi
Næsta grein„Við getum miklu meira“