Ungmennasamband Vestur-Skaftafellssýslu hlaut hinn eftirsótta Fyrirmyndarbikar við slit Unglingalandsmóts UMFÍ á Selfossvelli í gærkvöldi. Gríðarlegur fögnuður braust út hjá félögum USVS þegar Jóhann Steinar Ingimundarson, formaður UMFÍ, tilkynnti hver hlyti bikarinn.
Bikarinn er afhentur þeim gestum mótsins úr röðum sambandsaðila UMFÍ sem sýna prúðmennsku og eru til fyrirmyndar í einu og öllu á mótinu. Sérstaklega margir þátttakendur voru frá USVS á mótinu, klæddir vel merktum treyjum svo ekki var hjá því komist hvaðan þeir voru.
Um þúsund þátttakendur á aldrinum 11-18 ára voru á mótinu með fjölskyldum sínum og því á bilinu 4-5000 manns á mótinu yfir helgina. Mótsgestir voru til fyrirmyndar og urðu engin vandkvæði.
Tónleikar og mótsslit
Unglingalandsmótinu lauk með tónleikum í samkomutjaldinu á tjaldsvæðinu. Að þeim loknum gengu mótsgestir fylktu liði á eftir gamalli dráttarvél að Selfossvelli þar sem mótinu var slitið með formlegum hætti.
Á Selfossvelli þakkaði Þórir Haraldsson, formaður framkvæmdanefndar Unglingalandsmótsins á Selfossi, þátttakendum fyrir komuna og frábæra helgi, áður en fulltrúi Ungmennasambands Skagafjarðar, dró Hvítbláan, fána UMFÍ niður en Skagfirðingar munu geyma hann fram að mótinu á Sauðárkróki á næsta ári. Að því loknu var stórglæsileg flugeldasýning í umsjón Björgunarfélags Árborgar.