„Úrslitin sennilega sanngjörn“

Leikmenn Selfoss gengu heldur svekktir af velli eftir 0-0 jafntefli gegn Aftureldingu í Pepsi-deild kvenna í dag. Leikurinn var jafn og rokið spilaði stórt hlutverk.

„Þetta var jafn leikur og það var pínu stress í báðum liðum, mikilvægur leikur og liðin að berjast á svipuðum stað í deildinni,“ sagði Gunnar Borgþórsson, þjálfari Selfoss, í samtali við sunnlenska.is eftir leik.

Gunnar bætti því við að það væru vonbrigði að ná ekki þremur stigum úr þessari viðureign. „Við förum í þessa leiki til að vinna en þetta var hnífjafnt í dag og úrslitin sennilega sanngjörn. En við erum ennþá taplausar og höldum hreinu í tveimur leikjum af þremur þannig að það eru jákvæðir hlutir í þessu líka.“

Leikurinn var í járnum í fyrri hálfleik og Afturelding sótti meira með vindinn í bakið en heilt yfir var hálfleikurinn tíðindalítill. Bæði lið fengu þó ágæt færi til að skora.

Dæmið snerist við í seinni hálfleik þegar Selfoss hafði vindinn með sér. Selfoss var þá meira með boltann en líkt og gestunum, tókst Selfyssingum ekki að nýta sér vindinn. Þó að þær hafi skotið mikið á markið utan af velli náðu þær ekki að brjóta vörn Aftureldingar á bak aftur og skapa góð færi.

Katrín Rúnarsdóttir átti stangarskot um miðjan seinni hálfleikinn og þar komust Selfyssingar næst því að skora. Afturelding átti ágætar sóknir undir lok leiks og á síðustu mínútunum varði Michele Dalton vel í marki Selfoss þegar Telma Þrastardóttir slapp ein innfyrir.

Fyrri greinHúsnæðisverð hækkar á ný
Næsta greinHamar náði í stig úti á Nesi