Úrslitin í leik Árborgar og Hamars standa

Úrslitin í leik Árborgar og Hamars í bikarkeppninni í knattspyrnu um síðustu helgi skulu standa óhögguð. Þetta er niðurstaða aga- og úrskurðarnefndar KSÍ.

Liðin mættust á Selfossi síðastliðinn laugardag þar sem Árborg sigraði 4-3 eftir vítaspyrnukeppni. Hamarsmenn kærðu leikinn og kröfðust þess að úrslitin yrðu dæmd ógild og leikurinn endurtekinn.

Í vítaspyrnukeppninni skoraði Árni Páll Hafþórsson úr annarri spyrnu Árborgarliðsins. Knötturinn fór í gegnum gat á marknetinu og taldi dómarinn að boltinn hafði ekki farið í markið, heldur framhjá. Eftir að Hamar hafði tekið næstu spyrnu breytti dómarinn hins vegar ákvörðun sinni eftir að hafa ráðfært sig við aðstoðardómara 2 sem stóð við miðju vallarins og dæmdi mark Árna Páls gilt.

Í kæru sinni segja Hamarsmenn að boltinn hafi virst fara framhjá markinu og í hliðarnetið vinstra megin. Dómarinn hafi gert mistök við framkvæmd vítaspyrnukeppninnar og vísa Hvergerðingar þar til 5. greinar knattspyrnulaga en þar segir að dómari geti ekki breytt úrskurði sínum ef leikurinn hefur verið hafinn að nýju.

Í greinargerð sinni mótmæla Árborgarar atvikalýsingu Hamars og segja máli sínu til stuðnings að 5. grein knattspyrnulaga eigi ekki við um vítaspyrnukeppni, samanber 10. grein sömu laga. Þar sé tekið fram að vítaspyrnukeppni sé haldin ef leik er lokið.

Eftir að hafa fengið skýringar frá dómara leiksins segir aga- og úrskurðarnefndin það hafið yfir allan vafa að vítaspyrna Árborgar hafi farið í markið og í gegnum gat á netinu. Dómaranum hafi verið heimilt að endurskoða ákvörðun sína enda eigi atvikið sér stað eftir lokaflaut leiks. Breyta megi ákvörðunum í vítaspyrnukeppnum.

Árborgarar voru því sýknaðir af öllum kröfum Hamarsmanna.

Árborg mætir Víði í 32-liða úrslitum bikarkeppninnar á heimavelli þann 17. maí.