„Úrslitin eru ágætis viðvörun“

Logi Ólafsson, þjálfari Selfoss, var svekktur í leikslok en Selfoss tapaði mikilvægum stigum í toppbaráttu 1. deildar karla í knattspyrnu í kvöld með 0-1 tapi á heimavelli gegn Þrótti R.

„Þetta er súrt í broti, við erum meira og minna með boltann í leiknum og sköpum okkur nægilega mörg færi til að vinna þennan leik. Það er alltaf erfitt þegar gengur illa að skapa færi og síðan gengur illa þegar þú loksins færð færin,“ sagði Logi í samtali við sunnlenska.is eftir leik.

„Mér fannst við vera betri aðilinn í leiknum en skipulag Þróttara gekk vel upp. Þeir komu til að verjast og gera það vel. Það sem situr eftir hjá okkur er að við reyndum allan tímann og vorum að skapa færi fram á síðustu sekúndu, en inn vildi boltinn ekki.“

Logi segir enga ástæðu til að detta í einhverja depurð. Stutt sé í næsta leik sem er gegn KA á útivelli á föstudaginn. „Við höldum okkar striki. Úrslitin í kvöld eru ágætis viðvörun fyrir okkur.“