Úrslitaleikur framundan hjá Ægi

Ægismenn fengu stóran skell á útivelli í dag þegar liðið heimsótti Leikni á Fáskrúðsfjörð í 2. deild karla í knattspyrnu.

Leiknismenn sigruðu 6-1 og tryggðu sér sæti í 1. deildinni en skildu Ægi eftir í fallsæti.

Staðan var 2-0 fyrir Leikni í hálfleik en á upphafsmínútu síðari hálfleiks fékk Brenton Muhammad, markvörður Ægis, rauða spjaldið. Ragnar Olsen fór í markið og Leiknismenn komu knettinum þrívegis framhjá honum áður en Kristján Þorkelsson minnkaði muninn í 5-1 á 77. mínútu. Heimamenn innsigluðu svo 6-1 sigur sinn með marki í uppbótartíma.

Ægir er nú í 11. sæti deildarinnar með 21 stig. Í síðustu umferðinni tekur liðið á móti Njarðvík. Með sigri kemst Ægir uppfyrir Njarðvík á töflunni en jafntefli gæti dugað liðinu til að halda sæti sínu, að því gefnu að Tindastóll tapi fyrir Aftureldingu á sama tíma.

Fyrri grein„Ánægjulegt hvernig við komum til baka“
Næsta greinSelfoss byrjar vel í Olís-deildinni