Úrslitaleikir hjá Þór og FSu í kvöld

Þór Þorlákshöfn og FSu eiga bæði leiki á heimavelli í kvöld í 8-liða úrslitum Lengjubikars karla í körfubolta.

Liðin sigruðu í sínum riðlum í undankeppninni og komust í 8-liða úrslit, en undanúrslit og úrslitaleikir verða leiknir á Sauðárkróki um næstu helgi.

Þór mætir Tindastóli í Icelandic Glacial höllinni í Þorlákshöfn í kvöld kl. 19:15 en Stólarnir urðu í 2. sæti í B-riðli.

FSu fær Njarðvík í heimsókn á sama tíma í Iðu en Njarðvíkingar urðu í 2. sæti í A-riðlinum.

Í hinum leikjum 8-liða úrslitanna mætast Haukar og KR annars vegar og Grindavík og Stjarnan hins vegar.

Liðin fjögur sem sigra í kvöld leika svo í undanúrslitum á föstudagskvöld á Sauðárkróki. Úrslitaleikirnir fara fram á laugardag.

Fyrri greinÓmar Guðjóns og Tómas R. í Höfninni og á Klaustri
Næsta greinVon á hlaupvatni í byggð á fimmtudaginn