Úrslitakeppnin fjarlægist aftur

Þorlákshafnar-Þórsarar töpuðu mikilvægum stigum í Domino's-deild karla í körfubolta í kvöld þegar þeir heimsóttu Val að Hlíðarenda.

Þórsarar hafa verið á ágætu skriði í undanförnum leikjum og hafa nálgast sæti í úrslitakeppninni eftir dapra byrjun framan af móti. Leikurinn í kvöld var lykilleikur í þessari baráttu, en Þórsarar voru ekki sannfærandi í kvöld og Valur vann sanngjarnan sigur.

Þegar þrjár umferðir eru eftir af deildarkeppninni þurfa Þórsarar að vinna að minnsta kosti tvo leiki og treysta á að Keflavík tapi sínum, ætli liðið sér upp fyrir Keflavík í 8. sætið. Þór á eftir heimaleiki gegn KR og Hetti og útileik gegn Þór Akureyri. Miði er möguleiki, þó vonin hafi dvínað í kvöld.

Leikurinn gegn Val í kvöld var jafn í 1. leikhluta en 2. leikhlutinn var slakur hjá Þórsurum, Valur skoraði 30 stig gegn 14 og heimamenn leiddu 53-40 í hálfleik. Valur hélt frumkvæðinu inn í seinni hálfleikinn en Þórsarar gerðu áhlaup í 4. leikhluta sem kom of seint og dugði ekki.

Þór hefur 14 stig í 9. sæti deildarinnar en Valur er í 10. sætinu með 12 stig.

Tölfræði Þórs: Halldór Garðar Hermannsson 22/5 fráköst, Chaz Calvaron Williams 21/7 stoðsendingar/5 stolnir, Ólafur Helgi Jónsson 15/6 fráköst, Emil Karel Einarsson 13/8 fráköst, Davíð Arnar Ágústsson 8, DJ Balentine II 7.

Fyrri greinSigríður Helga kjörin stallari
Næsta greinGnúpverjar í góðum gír