Uppsveitir unnu riðilinn – Árborg og KFR með sigra

Aron Freyr Margeirsson skoraði fyrir Uppsveitir í dag. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Fjörugu fimmtudagskvöldi í fjórðu deild karla í knattspyrnu er lokið en 25 mörk voru skoruð í leikjum sunnlensku liðanna í kvöld.

Uppsveitir fengu Álftanes í heimsókn á Flúðir og gátu með sigri tryggt sér sigurinn í C-riðlinum. Það gerðu þeir líka sannfærandi eftir magnaðan seinni hálfleik.

Kristinn Sölvi Sigurgeirsson skoraði strax á 5. mínútu en það reyndist eina mark fyrri hálfleiks, þrátt fyrir fjölda færa. Álftanes jafnaði með marki úr vítaspyrnu á 50. mínútu en Aron Freyr Margeirsson kom Uppsveitum aftur í forystu fimm mínútum síðar. Þremur mínútum síðar breytti George Razvan stöðunni í 3-1 og hann var aftur á ferðinni á 76. mínútu. Maður leiksins, Kristinn Sölvi, kórónaði svo góða frammistöðu sína með fimmta markinu á 84. mínútu en í uppbótartímanum náðu Álftnesingar að troða inn sárabótarmarki. Lokatölur 5-2.

Það verður ekki af Uppsveitum tekið að þeir hafa átt frábært tímabil. Liðið er nú með 36 stig í 13 leikjum sem er stigamet sunnlenskra liða frá því 4. deildin var sett á laggirnar árið 2013. Liðið hefur unnið alla leiki sína, nema einn, skorað 74 mörk og fengið á sig 11. Þá hefur ótrúleg frammistaða George Razvan vakið mikla athygli en hann hefur skorað 38 mörk í tólf leikjum og er lang markahæsti leikmaðurinn í öllum deildum Íslandsmótsins.

Uppsveitir mæta Árborg í lokaumferðinni, þar sem spilað verður upp á heiðurinn, en Árborg hefur tryggt sér annað sætið í riðlinum og því skipta úrslitin næsta fimmtudag ekki máli.

Andrés Karl Guðjónsson er markahæstur Árborgara. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Árborg kom til baka
Árborg mætti KB á útivelli í kvöld og lenti í óvæntu mótlæti. Andrés Karl Guðjónsson kom Árborg yfir undir lok fyrri hálfleiks en í upphafi þess seinni fór allt í skrúfuna hjá Árborgurum og KB skoraði tvö mörk á þremur mínútum. Árborgarar gáfust ekki upp, Birkir Pétursson jafnaði á 60. mínútu og á eftir fylgdu mörk frá Inga Rafni Ingibergssyni og Sigurði Óla Guðjónssyni. Öruggur 2-4 sigur Árborgar þegar upp var staðið.

Hjörvar Sigurðsson, þjálfari KFR, komst á blað í kvöld. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Veisla á Hvolsvelli
Það var heldur betur veisla á Hvolsvelli þar sem Álafoss var í heimsókn hjá KFR. Þegar þrjár mínútur voru búnar voru bæði Unnar Jón Ásgeirsson og Rúnar Þorvaldsson búnir að skora og fimm mínútum síðar bætti Hjörvar Sigurðsson við þriðja marki KFR. Ævar Már Viktorsson og Bjarni Þorvaldsson sáu svo til þess að KFR leiddi 5-0 í hálfleik. Seinni hálfleikurinn var öllu rólegri. Helgi Valur Smárason skoraði eftir sjö mínútur og það reyndist eina mark seinni hálfleiks. Sex núll í næstsíðasta heimaleik KFR í sumar en þeir mæta Hamri í Hveragerði í lokaumferðinni.

Jón Jökull Þráinsson skoraði fyrir Stokkseyri. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Stokkseyringar í gini Úlfanna
Stokkseyringar stóðu í ströngu þegar þeir heimsóttu Úlfana á Framvöllinn í Úlfarsárdal í kvöld. Steinar Gunnbjörnsson kom Stokkseyringum yfir á 12. mínútu í kjölfarið fylgdu þrjú mörk frá Úlfunum á tuttugu mínútna kafla. Jón Jökull Þráinsson minnkaði muninn í 3-2 á 38. mínútu en Úlfarnir bitu enn á ný frá sér í uppbótartímanum og staðan var 4-2 í hálfleik. Það var minna skorað í seinni hálfleik en Úlfarnir bættu við marki um hann miðjan og sigruðu 5-2.

Beautiful Mind GIFs - Get the best GIF on GIPHY

Staðan
Staðan í C-riðlinum er þannig að Uppsveitir eru í toppsætinu með 36 stig og Árborg í 2. sæti með 31 stig. Liðin fara bæði í úrslitakeppni 4. deildarinnar og munu í það minnsta leika í nýju 4. deildinni að ári en eiga möguleika á sæti í 3. deild. Árborg þarf líklegast að fara lengri leið því fjögur lið í 2. sæti riðlanna fimm fara í umspil um sæti í 8-liða úrslitunum.

KFR er með 19 stig og verður í 4. sæti D-riðils og mun þar með fara í umspil um sæti í nýju 5. deildinni, annað hvort gegn Boltafélagi Norðfjarðar eða Samherja. Leikið verður heima og heiman.

Stokkseyri er í 7. sæti B-riðils með 11 stig og mun leika í utandeild KSÍ á næsta ári, nema liðið nái að vinna Tindastól á útivelli í lokaumferðinni um leið og Stokkseyringar þurfa að treysta á að RB tapi síðustu tveimur leikjum sínum, gegn KFK og Afríku.

Fyrri greinStórskipahöfn í Hveragerði
Næsta greinBáran fordæmir ofbeldi og einelti