Uppsveitir röðuðu inn mörkum

Kristinn Sölvi Sigurgeirsson skoraði tvö mörk í kvöld. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Uppsveitir unnu öruggan sigur á KB í C-deild Lengjubikars karla í knattspyrnu í kvöld en Stokkseyri tapaði stórt gegn RB.

Tómas Stitelmann var fljótur að stimpla sig inn hjá Uppsveitum en hann kom þeim yfir strax á 11. mínútu gegn KB. Kristinn Sölvi Sigurgeirsson bætti öðru marki við um miðjan fyrri hálfleikinn en KB minnkaði muninn fyrir hálfleik og staðan var 1-2 í leikhléi.

Kristinn Sölvi bætti öðru marki við á 57. mínútu og eftirleikurinn varð svo nokkuð auðveldur fyrir Uppsveitir eftir að KB missti mann af velli með rautt spjald. Pétur Geir Ómarsson, Máni Snær Benediktsson og Sólmundur Magnús Sigurðarson bættu allir við mörkum undir lokin en KB svaraði fyrir sig úr vítaspyrnu skömmu fyrir leikslok og lokatölur urðu 2-6. Þetta var fyrsti sigur Uppsveita í Lengjubikarnum, liðið hefur 3 stig í 3. sæti, jafnmörg og KB sem er í 4. sætinu.

Stokkseyri heimsótti RB í Reykjaneshöllina. Eftir markalausan fyrri hálfleik röðuðu RB menn inn mörkunum og unnu að lokum 5-0. Stokkseyri er í 4. sæti riðilsins með 3 stig, jafnmörg og RB sem hefur betra markahlutfall.

Fyrri greinÞyrla sótti slasaðan fjórhjólamann
Næsta greinSelfyssingar öflugir á Vormóti JSÍ