Uppsveitir og Árborg úr leik

Aron Freyr Margeirsson skoraði fyrir Uppsveitir í dag. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Uppsveitir og Árborg voru slegin út úr 8-liða úrslitum 4. deildar karla í knattspyrnu í dag, þegar liðin léku seinni leiki sína gegn Árbæ og Einherja.

Uppsveitir voru reyndar fyrirfram í vonlausri stöðu, eftir að hafa tapað 8-0 í fyrri leiknum gegn Árbæ. Þeir rauðu dvöldu ekki við það heldur mættu ferskir til leiks í dag. Fyrri hálfleikur var markalaus en á 42. mínútu fékk Pétur Geir Ómarsson sitt annað gula spjald og Uppsveitamenn því manni færri allan seinni hálfleikinn. Þeir létu það ekki á sig fá og þegar tuttugu mínútur voru eftir kom Aron Freyr Margeirsson þeim yfir. Máni Snær Benediktsson tvöfaldaði forystu Uppsveita fimm mínútum síðar og þar við sat. Lokatölur 2-0 og Árbær vann einvígið samtals 2-8.

Árborg sótti Einherja heim á erfiðan útivöll á Vopnafirði. Einherji vann fyrri leikinn á Selfossi 3-0 og heimamenn reyndust sterkari í dag. Einherji komst yfir undir lok fyrri hálfleiks og bætti svo við öðru marki um miðjan seinni hálfleikinn. Lokatölur 2-0 og Einherji vann einvígið 5-0.

Sunnlensku liðin hafa því lokið keppni í 4. deildinni í sumar og ljóst að Uppsveitir og Árborg munu leika í hinni nýju 4. deild að ári, sem verður 10 liða deild. Hamar og KFR spila í 5. deildinni, sem er 16 liða deild í tveimur riðlum og Stokkseyri mun fá sæti í Utandeild KSÍ

Fyrri greinAlvarlegt slys við Eystri-Rangá
Næsta greinSelfossliðunum spáð 7. og 8. sæti