Uppsveitir harðir á heimavelli – Stokkseyri tapaði úti

Gústaf Sæland stýrði sínum mönnum í taktískum sigri gegn Herði á Laugarvatni í dag. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Uppsveitir unnu góðan heimasigur í 5. deild karla í knattspyrnu í dag á meðan Stokkseyringar töpuðu á útivelli eftir langt ferðalag.

Uppsveitir fengu Hörð frá Ísafirði í heimsókn á Laugarvatn. Uppsveitamenn voru sterkari í fyrri hálfleik en tókst ekki að skora og staðan var 0-0 í hálfleik. Þegar korter var liðið af seinni hálfleiknum skoraði Marteinn Guðjónsson glæsimark fyrir Uppsveitir og reyndist það sigurmark leiksins. Uppsveitir sigruðu 1-0 en þeir spiluðu manni fleiri síðasta korterið eftir að Harðarmaður uppskar rautt spjald.

Stokkseyringar brunuðu í rútu austur í Fellabæ og beint í leik á móti Spyrni á Fellavelli. Heimamenn byrjuðu betur og komust yfir strax á 8. mínútu og þeir bættu svo við öðru marki undir lok fyrri hálfleiks, 2-0 í hálfleik. Leikurinn var í járnum í seinni hálfleik og hvorugu liðinu tókst að skora þrátt fyrir ágætar sóknir. Það var ekki fyrr en á 78. mínútu að Guðni Þór Valdimarsson minnkaði muninn fyrir Stokkseyringa og þar við sat, lokatölur 2-1.

Staðan í 5. deildinni er þannig að í A-riðlinum eru Uppsveitir í 4. sæti með 4 stig en í B-riðlinum er Stokkseyri í 6. sæti með 3 stig.

Fyrri greinJöfnunarmark í uppbótartímanum
Næsta greinFyrsta útnefning sérstæðra birkiskóga