Uppsveitir grasrótarfélag ársins

Það voru þeir Gústaf Sæland og Sólmundur Magnús Sigurðarson frá Uppsveitum sem tóku við verðlaununum frá formanni KSÍ, Vöndu Sigurgeirsdóttur. Ljósmynd/KSÍ

Íþróttafélag Uppsveita fékk á dögunum grasrótarverðlaun Knattspyrnusambands Íslands í flokknum grasrótarfélag ársins, fyrir frábært uppbyggingarstarf í knattspyrnu barna og unglinga.

Félagið var stofnað árið 2019 með það fyrir augum að lyfta íþróttastarfi í uppsveitum Árnessýslu á hærra plan og veita iðkendum tækifæri á fleiri æfingum og möguleikum á að keppa í sinni íþrótt. Uppsveitir halda úti knattspyrnuæfingum fyrir börn og unglinga í Árnesi, Borg, Brautarholti, Flúðum, Laugarvatni og Reykholti.

Í verkefninu „Komdu í fótbolta“ síðasta sumar heimsótti Moli, starfsmaður KSÍ, fimm af þessum stöðum og komu alls 95 börn og unglingar til að hitta hann og leika sér í fótbolta. Ánægjan og gleðin skein af andlitum allra sem komu að heimsóknunum, hvort heldur sem það voru börnin, þjálfararnir eða foreldrarnir.

„Augljóst þykir að hjá Uppsveitum er unnið frábært starf í knattspyrnu barna og unglinga og þar kristallast mikilvægi knattspyrnunnar í samfélagi okkar, jafnt í stórum sveitarfélögum sem smáum,“ segir í tilkynningu frá KSÍ.

Grasrótarverðlaun KSÍ eru veitt sem viðurkenningar fyrir starf að grasrótarmálum í knattspyrnu. Verðlaunin, sem eru afhent í aðdraganda ársþings KSÍ ár hvert, eru nú í fyrsta sinn veitt í þremur flokkum; grasrótarverkefni ársins, grasrótarfélag ársins og grasrótarpersóna ársins. Það voru þeir Gústaf Sæland og Sólmundur Magnús Sigurðarson frá Uppsveitum sem tóku við verðlaununum frá formanni KSÍ, Vöndu Sigurgeirsdóttur.

Fyrri greinGestur leiðir D-listann – Elliði bæjarstjóraefni
Næsta greinMótmæla kröftuglega lokun og tilfærslu starfa