Uppsveitir fengu slæma útreið – Árborg í erfiðri stöðu

Magnús Ingi Einarsson var sprækur, en náði ekki að skora í dag. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Uppsveitir og Árborg léku í dag fyrri leiki sína í 8-liða úrslitum 4. deildar karla í knattspyrnu.

Uppsveitir heimsóttu Árbæ í Árbæinn og niðurstaðan varð algjör niðurlæging fyrir Uppsveitamenn. Heimamenn voru komnir í 2-0 eftir sex mínútur og staðan var 4-0 í hálfleik. Árbær bætti fimmta markinu við í upphafi seinni hálfleiks og skömmu síðar fékk markamaskínan George Razvan að líta rauða spjaldið og Uppsveitamenn því manni færri síðasta hálftímann. Árbæingar gengu á lagið og bættu við þremur mörkum á síðustu tuttugu mínútunum, ótrúlegar lokatölur 8-0.

Árborg tók á móti Einherja frá Vopnafirði á Selfossi. Bæði lið fengu fín færi í fyrri hálfleik, sem þó var markalaus. Það sama var uppi á teningnum framan af seinni hálfleik en á 63. mínútu dró til tíðinda þegar gestirnir komust yfir. Árborgarar voru ekki hættir og fengu gott færi til að jafna en á síðasta korterinu voru Einherjamenn sprækari og bættu við tveimur mörkum, þannig að úrslitin urðu 0-3.

Seinni leikir liðanna fara fram á þriðjudagskvöld. Uppsveitamenn þurfa kraftaverk til að slá Árbæ út og Árborgar bíður erfitt verkefni á sterkum heimavelli Einherja á Vopnafirði.

Fyrri greinSelfoss sigraði í átta marka leik
Næsta greinHamar tapaði heima