Uppsveitir blása til sóknar

Fjölmiðlar biðu eftir Alfonso David Porras Niño við komuna til Keflavíkur á dögunum. Ljósmynd/Uppsveitir

Uppsveitamenn hafa styrkt sóknarlínu sína verulega fyrir komandi átök í 5. deild karla í knattspyrnu.

Nýverið samdi liðið við ítalska framherjann Alfonso Porras, 25 ára framherja sem spilaði síðast í Ástralíu en þar áður raðaði hann inn mörkum fyrir Kolmonen Läntinen í finnsku 5. deildinni.

Þá hefur einn dáðasti sonur Uppsveitanna, Kristinn Sölvi Sigurgeirsson, snúið aftur til liðsins eftir dvöl hjá Árborg. Kristinn Sölvi er fyrrum fyrirliði Uppsveita og hann kemur til með að ógna andstæðingunum með hraða sínum og krafti.

Nýju liðsmennirnir verða væntanlega í leikmannahópi Uppsveita sem mætir Skallagrím í Borgarnesi í kvöld. Uppsveitir eru sem stendur í 6. sæti A-riðils 5. deildar með 6 stig.

Kristinn Sölvi Sigurgeirsson. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Fyrri greinHellisheiðarvirkjun nærri kolefnishlutlaus með tilkomu Silfurbergs
Næsta greinÞrettán HSK met og eitt brautarmet sett í Bláskógaskokkinu