Uppsveitir heimsóttu Knattspyrnufélag Miðbæjar í 5. deild karla í knattspyrnu í dag. Miðbæjarmenn reyndust sterkari og unnu 2-0 sigur.
Leikurinn var í járnum allan tímann en mörk Miðbæjar komu með mínútu millibili um miðjan fyrri hálfleikinn. Uppsveitamenn voru manni færri þessar mínútur þar sem Tómas Ingi Ármann þurfti aðhlynningu vegna blóðnasa. Það var nóg til að riðla leik liðsins og KM gekk á lagið.
Staðan var 2-0 í hálfleik og seinni hálfleikurinn var markalaus. Munaði þar mikið um framlag Sólmundar Magnúsar Sigurðarsonar í vörn Uppsveita en liðsfélögum hans tókst ekki að skapa nóg í sókninni til þess að koma ÍBU aftur inn í leikinn.
Eftir tvær umferðir eru Uppsveitir í 7. sæti A-riðils, án stiga, en KM er í 2. sæti með 4 stig.