Uppsveitaliðin bæði upp um deild

Lið Hrunamanna/Laugdæla og lið Gnúpverja tryggðu sér bæði í vikunni sæti í 1. deild karla í körfubolta.

Gnúpverjar léku úrslitaleik gegn Leikni R í 2. deildinni í fyrrakvöld og sigruðu 95-75. Gnúpverjar höfðu yfirhöndina stærstan hluta leiksins og leiddu með 13 stiga mun í hálfleik. Þetta er annað árið í röð sem Gnúpverjar fara upp um deild.

Stigahæstir Gnúpverja voru Ásgeir Nikulásson með 19 stig og Þórir Sigvaldason með 17.

Hrunamenn/Laugdælir tóku á móti KV í gærkvöldi og unnu öruggan sigur, 84-63. Lið Hrunamanna/Laugdæla hefur haft nokkra yfirburði í 2. deildinni í vetur og aðeins tapað einum leik.

Florijan Jovanov var stigahæstur í leiknum gegn KV með 23 stig og Bjarni Bjarnason skoraði 22.

Hrunamenn/Laugdælir og Gnúpverjar munu nú leika úrslitaleik um deildarmeistaratitilinn og verður hann líklega leikinn á Flúðum næstkomandi fimmtudag.