Uppskeruhátíð ÍTÁ í kvöld

Í kvöld kl. 19:30 fer fram árleg uppskeruhátíð íþrótta- og menningarnefndar Árborgar. Hátíðin fer fram í hátíðarsal Fjölbrautaskóla Suðurlands.

Á hátíðinni eru þeir einstaklingar sem hafa skarað framúr á árinu í sinni íþrótt heiðraðir ásamt því að íþróttafélögin úthluta úr sínum afrekssjóðum sem sveitarfélagið leggur pening í samkvæmt samningi. Hápunktur kvöldsins er síðan þegar tilkynnt er um kjör íþróttakonu og -karls Árborgar 2016.

Tónlistarkonurnar Bergrún Gestsdóttir, Arna Dögg Sturludóttir og Birta Rós Hlíðdal sem unnu söngkeppni FSu fyrr í haust spila og syngja nokkur lög.

Hátíðin er öllum opin en boðið er uppá kaffi og meðlæti að henni lokinni.