„Upphafið að einhverju frábæru“

Selfyssingar gátu ekki leyft sér að vera svekktir eftir jafntefli við Hauka í kvöld þó að góð færi hafi farið forgörðum á lokakaflanum.

Sebastian Alexandersson, þjálfari Selfoss, var ánægður í leikslok þó að hann hafi að sjálfsögðu viljað fá meira út úr leiknum. „Þetta var ekki fallegur leikur en stig er stig og það er mjög langþráð fyrir okkur. Mér fannst bæði liðin eiga skilið að vinna en við fórum reyndar með þrjú vítaköst í súginn og aragrúa af hraðaupphlaupum hægra megin,“ sagði Sebastian í samtali við sunnlenska.is í leikslok.

Selfoss tefldi fram tveimur nýjum leikmönnum í leiknum, Andrius Zigelis og Milan Ivancev og komust þeir ágætlega frá leiknum þó að mistökin í sókninni hafi verið nokkur.

„Það er rosalega erfitt að koma inn með tvo nýja leikmenn, þeir eru búnir að mæta á tvær æfingar og það er fullt af hlutum sem við eigum eftir að fara yfir. Það var óöryggi í sóknarleiknum hjá okkur og það þarf að slípa tímasetningar og annað í sókninni. Við fórum í leikinn með það að markmiði að spila góða vörn og það tókst,“ segir Sebastian.

„Mér fannst við berjast fyrir því að fá eitthvað út úr leiknum í kvöld og þetta er bara byrjunin. Nú erum við búnir að brjóta ísinn og þetta er upphafið að einhverju frábæru.“

Fyrri greinHamar í fallsæti
Næsta greinUngir sjálfstæðismenn skora á þingmenn