„Uppbyggingin á Selfossi algjörlega stórkostleg“

Það var gestkvæmt í nýjasta þætti Selfoss hlaðvarpsins sem kom út fyrr í kvöld. Einn gestanna var Guðmundur Guðmundsson, þjálfari íslenska landsliðsins í handbolta.

Arnar Helgi Magnússon, þáttastjórnandi hlaðvarpsins, ræddi við Guðmund um nýliðið heimsmeistaramót í handbolta og uppbygginguna sem hefur átt sér stað síðustu ár í handboltanum á Selfossi.

„Uppbyggingin á Selfossi síðustu ár hefur verið stórkostleg, algjörlega stórkostleg. Þetta er til svo mikillar fyrirmyndar að það hálfa væri nóg. Þeir sem hafa staðið á bakvið þessa handboltaakademíu eiga mikið hrós skilið,“ segir Guðmundur.

„Að mínu mati er það ekki tilviljun að það hafi komið svona margir landsliðsmenn frá Selfossi síðustu ár eins og staðreyndin er. Þetta er vegna þess að menn eru búnir að vinna afskaplega faglega og á framsýnan hátt. Þetta er búið að skila íslenska landsliðinu ótrúlegum fjölda landsliðsmanna og það er eiginlega bara með ólíkindum. Það er vegna þess að menn eru búnir að vinna alveg frábært starf þarna.“

Ásamt því að þjálfa íslenska landsliðið þá þjálfar Guðmundur einnig þýska úrvalsdeildarfélagið Melsungen. Elvar Örn Jónsson gengur til liðs við Melsungen frá Skjern í sumar.

„Elvar er frábær handknattleiksmaður, framtíðarmaður og frábær karakter. Þú getur alltaf stólað á það að Elvar gefi sig allan fram í verkefnið. Hann er fjölhæfur leikmaður og getur leyst allar varnarstöður, skyttu og miðju. Ég veit að hverju ég geng þegar kemur að Elvari og ég bind miklar vonir við hann,“ segir Guðmundur einnig í Selfoss hlaðvarpinu.

Ásamt Guðmundi voru þeir Elvar Örn Jónsson og Bjarki Már Elísson á símalínunni í þættinum. Þá voru þeir Helgi Hlynsson og Þórir Ólafsson í settinu en þeir fóru yfir glæstan sigur Selfoss á Val í Olísdeildinni í gærkvöldi.

Þáttinn í heild sinni má nálgast hér fyrir neðan en hann má einnig finna á öllum hlaðvarpsveitum undir Selfoss hlaðvarpið.

Fyrri grein„Gefur félaginu byr undir báða vængi“
Næsta greinSterkur útisigur Þórsara