Unnur og Lilja afgreiddu FH

sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss vann öruggan sigur á FH í A-deild Lengjubikars kvenna í knattspyrnu á gervigrasinu á Selfossi í kvöld.

Þær vínrauðu voru fljótar að láta til sín taka en Unnur Dóra Bergsdóttir kom þeim yfir með góðu skoti úr teignum eftir fyrirgjöf Evu Lindar Elíasdóttur á 8. mínútu. Rúmu korteri síðar átti Bergrós Ásgeirsdóttir frábæran sprett upp hægri kantinn og hún fann einnig Unni Dóru í teignum. Unnur átti ekki í neinum vandræðum með að skora og staðan orðin 2-0.

FH minnkaði muninn undir lok fyrri hálfleiks þegar sóknarmaður þeirra þrumaði boltanum fyrir markið, í Sif Atladóttur, og af henni hrökk boltinn í netið.

Staðan var 2-1 í hálfleik og seinni hálfleikurinn var fjörugur og spennandi líkt og sá fyrri. Á 71. mínútu kom hin 16 ára gamla Lilja Björk Unnarsdóttir inná í sínum fyrsta leik fyrir Selfoss og hún lét heldur betur til sín taka.

Á 79. mínútu mistókst FH-ingum að hreinsa og boltinn barst á Lilju Björk sem lét vaða með vinstri fæti af 35 metra færi í netið. Hún var svo aftur á ferðinni á 86. mínútu þegar markvörður FH varði frá Evu Lind en Lilja hirti frákastið og skoraði af öryggi í tómt markið.

Mínútu síðar minnkaði FH muninn í 4-2 og þær voru nær því að bæta við þriðja markinu á lokakaflanum en Selfyssingar vörðust vel og unnu sanngjarnan sigur.

Þetta var fyrsti leikur Selfoss í Lengjubikarnum en liðið er í 3. sæti riðilsins með 3 stig og mætir næst Þrótti á útivelli um næstu helgi.

Fyrri greinSelfyssingar sterkir í lokin
Næsta greinUngmennaliðin höfðu sætaskipti