Unnu rúma milljón á enska seðlinum

Þeir voru heldur betur lukkulegir tippararnir sem nældu sér í 13 rétta á enska getraunaseðlinum um síðustu helgi og kræktu þar í rétt rúmlega milljón krónur í vinning.

Það var þó ekki fyrr en í þriðju mínútu uppbótartíma að sjómennirnir frá Hull City skoruðu sigurmarkið gegn traktorunum frá Ipswich Town að þrettándi leikurinn skilaði sér í hús eins og búist hafði verið við.

Það er líf og fjör í getraunastarfi knattspyrnudeildar Umf. Selfoss á hverjum laugardagsmorgni og til mikils að vinna. Getraunaþjónustan er opin á milli kl. 11 og 13 á laugardögum þar sem tipparar geta spáð í leiki helgarinnar um leið og þeir gæða sér á nýlöguðu kaffi og gómsætu bakkelsi frá Guðnabakaríi.

“Það verða þarna oft ansi hreint fjörugar umræður um allt það sem drífur á daga tipparanna. Til að toppa þessa frábær stemmningu renna 26% af hverjum keyptum seðli í Tíbrá beint í uppbyggingarstarf knattspyrnudeildarinnar,” sagði Gissur Jónsson, getraunastjóri Selfyssinga, í samtali við sunnlenska.is.

Um næstu helgi verður árlegur dögurður (brunch) Selfoss getrauna að hausti en þá er öllum tippurum og fjölskyldum þeirra boðið til veislu sem hefst í Tíbrá kl. 11:30 á laugardagsmorgun.