Unnu deildarmeistarabikarinn til eignar

Hamarsmenn sáttir í leikslok, eftir að hafa lyft deildarmeistarabikarnum þriðja tímabilið í röð. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Karlalið Hamars vann 3-0 sigur á Aftureldingu í úrvalsdeildinni í blaki í Frystikistunni í Hveragerði í dag. Þrátt fyrir 3-0 lokatölur var leikurinn hnífjafn allan tímann.

Fyrir leikinn voru Hamarsmenn búnir að tryggja sér deildarmeistaratitilinn og þeir fengu bikarinn síðan afhentan í leikslok. Þetta er þriðja árið í röð sem Hamar verður deildarmeistari og unnu þeir því bikarinn til eignar.

Fyrsta hrinan var æsispennandi, liðin skiptust á um að hafa forystuna en Hamar vann að lokum 25-23. Hvergerðingar fóru vel af stað í annarri hrinu og voru komnir með gott forskot, 23-15, en þá komu sjö stig í röð frá Aftureldingu sem jafnaði svo 24-24. Eftir mikla baráttu tók Hamar hrinuna 28-26.

Hamarsmenn voru lengi í gang í þriðju hrinunni og allt leit úr fyrir að Afturelding tæki hana örugglega. En endaspretturinn var frábær hjá Hvergerðingum, þeir voru 15-21 undir þegar þeir tóku leikhlé en skoruðu eftir það átta stig í röð, breyttu stöðunni í 23-21 og unnu að lokum hrinuna 25-22 og leikinn þar með 3-0.

Hafsteinn og Kristján Valdimarssynir taka við deildarmeistarabikarnum eftir leik. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Fyrri greinÍslandsmet og HM lágmörk hjá Snæfríði
Næsta greinUppsveitir buðu til markaveislu – Ægir og KFR komust áfram