Unnsteinn íþróttamaður Þjótanda 2018

Unnsteinn Reynisson. Ljósmynd/Þjótandi

Unnsteinn Reynisson, frjálsíþróttamaður frá Hurðarbaki, var útnefndur íþróttamaður Ungmennafélagsins Þjótanda í Flóahreppi á aðalfundi félagsins á mánudagskvöld.

Unnsteinn er fæddur árið 2003 og varð því 15 ára á síðasta ári. Unnsteinn tók gífurlegum framförum árið 2018 og bætti sig í öllum greinum t.d. um 19 cm í hástökki innanhúss og 2,5 m í kúluvarpi með 4 kg kúlu.

Hann varð Unglingalandsmótsmeistari í flokki 15 ára í hástökki auk þess sem hann var drjúgur í stigasöfnun bæði fyrir HSK á MÍ unglinga og Umf. Þjótanda á Héraðsmótum HSK í flokkum unglinga og fullorðinna þar sem hann er sífellt að gera sig meira gildandi. 

Unnsteinn er jákvæður og duglegur íþróttamaður sem hefur alla burði til þess að bæta sig enn meira á komandi árum og komast í fremstu röð. 

Þess má að lokum geta að nú í janúar bætti Unnsteinn enn um betur og komst inn í Úrvalshóp unglinga hjá Frjálsíþróttasambandi Íslands með því að stökkva 1,80 m í hástökki á Unglingamóti HSK.

Fyrri greinBúið að opna Hellisheiði og Þrengsli
Næsta greinSvekkjandi tap eftir svakalegan endasprett