Ungu mennirnir þögguðu niður í Kórdrengjunum

Tryggvi Sigurberg Traustason skoraði 7 mörk fyrir Selfoss-U. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Ungmennalið Selfoss vann góðan sigur á Kórdrengjum í Grill66 deild karla í handbolta í Set-höllinni á Selfossi í kvöld, 33-28.

Kórdrengir byrjuðu betur í leiknum og komust í 6-10 en Selfoss lauk fyrri hálfleiknum vel, jafnaði 12-12 og tók forystuna í kjölfarið. Staðan var 15-14 í hálfleik.

Selfoss-U skoraði fyrstu tvö mörkin í seinni hálfleiknum og leiddi lengst af með einu til tveimur mörkum. Kórdrengir gáfust þó ekki upp og jöfnuðu 25-25 þegar rúmar tíu mínútur voru eftir. Þá kom frábær 6-1 kafli hjá Selfyssingum, sem þögguðu endanlega niður í Kórdrengjunum og á lokamínútunum var öll spenna úr leiknum.

Í 5. sæti inn í jólafríið
Tryggvi Sigurberg Traustason var markahæstur Selfyssinga með 7 mörk, Guðjón Baldur Ómarsson skoraði 6, Vilhelm Freyr Steindórsson 5, Sölvi Svavarsson og Gunnar Flosi Grétarsson 4, Sæþór Atlason 2, Árni Ísleifsson 2/1 og þeir Elvar Elí Hallgrímsson, Sigurður Snær Guðjónsson og Einar Ágúst Ingvarsson skoruðu allir 1 mark.

Alexander Hrafnkelsson varði 13/1 skot í marki Selfoss-U og var með 32% markvörslu. Jón Þórarinn Þorsteinsson varði 3 skot og var með 75% markvörslu.

Ungmennalið Selfoss er áfram í 5. sæti deildarinnar, nú með 10 stig en Kórdrengir eru í 8. sæti með 4 stig.

Þetta var síðasti leikur Selfoss-U fyrir jól en liðið á næst heimaleik gegn Haukum-U þann 10. janúar.

Fyrri greinTinna með tíu gegn Fram-U
Næsta greinHamar-Þór úr leik í bikarnum