Ungu mennirnir skelltu Fjölni

Andri Dagur Ófeigsson og Alexander Hrafnkelsson léku vel fyrir Selfoss U í kvöld. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Ungmennalið Selfoss vann frábæran sigur á Fjölni í 1. deild karla í handbolta í kvöld, en liðin mættust í Dalhúsum í Grafarvogi. Lokatölur urðu 23-24.

Leikurinn var jafn og spennandi allan tímann en heimamenn leiddu í hálfleik, 12-11. Selfyssingar höfðu frumkvæðið á lokakaflanum en Fjölnismenn fengu tækifæri til þess að jafna metin undir lokin. Þeir köstuðu hins vegar boltanum frá sér þegar 14 sekúndur voru eftir og Selfyssingar héldu knettinum til leiksloka.

Gunnar Flosi Grétarsson og Andri Dagur Ófeigsson voru markahæstir í liði Selfoss en þeir skoruðu báðir 7 mörk. Guðjón Baldur Ómarsson skoraði 4/1 mörk, Elvar Elí Hallgrímsson 2, Tryggvi Sigurberg Traustason 1/1 og þeir Arnór Logi Hákonarson og Grímur Bjarndal Einarsson skoruðu sitt markið hvor.

Alexander Hrafnkelsson hélt áfram að verja vel í marki Selfoss en hann varði 17 skot og var með 42% markvörslu.

Selfoss U er í 6. sæti deildarinnar með 12 stig en Fjölnir er í 4. sæti með 14 stig.

Fyrri greinLangþráður sigur Hamars-Þórs
Næsta greinFlúðaskóli og Grunnskólinn á Hellu skákuðu öðrum