Ungmennin hlupu niður botnliðið

Tryggvi Sigurberg Traustason skoraði 6 mörk fyrir Selfoss. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Ungmennalið Selfoss heimsótti botnlið Kórdrengja á Ásvelli í Hafnarfirði í Grill-66 deild karla í handbolta í dag.

Það var jafnt á flestum tölum í fyrri hálfleik en þegar leið á hann tóku Selfyssingar frumkvæðið og leiddu 16-18 í hálfleik. Það varð svo ljóst fljótlega í seinni hálfleik í hvað stefndi þegar Kórdrengirnir hættu að hlaupa með Selfyssingunum ungu. Selfoss-U jók forskotið jafnt og þétt og sigraði að lokum með níu marka mun, 32-41.

Sæþór Atlason var markahæstur Selfyssinga með 8 mörk, Vilhelm Freyr Steindórsson skoraði 7, Tryggvi Sigurberg Traustason 6, Haukur Páll Hallgrímsson 5, Gunnar Kári Bragason 4, Sölvi Svavarsson, Anton Breki Hjaltason, Hans Jörgen Ólafsson og Árni Ísleifsson skoruðu allir 2 mörk og þeir Gunnar Flosi Grétarsson, Valdimar Örn Ingvarsson og Jón Þórarinn Þorsteinsson skoruðu allir 1 mark.

Jón Þórarinn varði 10 skot í marki Selfoss-U og Alexander Hrafnkelsson varði 2 skot.

Staðan í deildinni er þannig að Selfoss-U er í 8. sæti með 11 stig en Kórdrengir eru á botninum, án stiga.

Fyrri greinFjórir umsækjendur í Árborgarprestakalli
Næsta greinStöndum vörð um veitur Árborgar