Ungmennaliðin höfðu sætaskipti

Hans Jörgen Ólafsson og Tryggvi Sigurberg Traustason. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Ungmennaliði Selfoss tókst ekki að tryggja Selfyssingum „Akureyrarþrennuna“ þegar liðið mætti ungmennaliði KA á Akureyri í kvöld í Grill-66 deild karla í handbolta.

Allir meistaraflokkar Selfoss léku á Akureyri í dag og bæði kvenna- og karlaliðið unnu góða sigra. Ungmennaliðinu tókst hins vegar ekki að fara með sigur af hólmi því KA-U leiddi allan tímann. Munurinn varð mestur fjögur mörk í fyrri hálfleik og staðan var 17-13 í leikhléi.

Selfyssingar byrjuðu mun betur í seinni hálfleik og jöfnuðu 18-18 og jafnræði var með liðunum fram í miðjan seinni hálfleikinn. KA-U-menn voru hins vegar sterkari á lokakaflanum og náðu fimm marka forskoti þegar tíu mínútur voru eftir. Það bil náði Selfoss ekki að brúa og lokatölur urðu 31-26.

Sæþór Atlason, Hans Jörgen Ólafsson og Tryggvi Sigurberg Traustason skoruðu allir 5 mörk fyrir Selfoss-U. Gunnar Kári Bragason, Anton Breki Hjaltason, Vilhelm Freyr Steindórsson og Árni Ísleifsson skoruðu 2 mörk og þeir Gunnar Flosi Grétarsson, Haukur Páll Hallgrímsson og Alexander Hrafnkelsson skoruðu allir 1 mark. Alexander varði 16 skot í marki Selfoss.

Úrslitin þýða það að liðin hafa sætaskipti á töflunni. Selfoss-U er nú í 8. sæti með 13 stig og KA-U í 7. sæti með 14 stig.

Fyrri greinUnnur og Lilja afgreiddu FH
Næsta greinAlgeng virkni í Mýrdalsjökli