Unglingalandsmótið á Selfossi enn á dagskrá

Lið HSK gengur inn á völlinn á Unglingalandsmótinu á Höfn 2019. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Unglingalandsmót Ungmennafélags Íslands er enn á dagskrá á Selfossi um verslunarmannahelgina.

Ómar Bragi Stefánsson, framkvæmdastjóri móta UMFÍ, segir ákvörðun um mótið verða tekna í byrjun júní.

„Það er enn nokkuð langt í mótið. Þessi veirufaraldur er mikið ólíkindafól og ekki hægt að gera áætlanir langt fram í tímann. Við ætlum því að halda allri vinnu við undirbúning mótsins áfram eins og mögulegt er í stöðunni með öllum þeim sjálfboðaliðum sem að því koma. Við erum auðvitað meðvituð um stöðuna og tökum skynsamlega ákvörðun þegar að því kemur,‟ segir Ómar í frétt á heimasíðu UMFÍ.

Þar kemur fram að Stjórn UMFÍ hafi ákveðið að fresta Landsmóti UMFÍ 50+ sem halda átti í Borgarnesi 19.-20. júní og Íþróttaveislu UMFÍ sem átti að halda helgina eftir í Kópavogi. Mótunum er frestað til næsta árs.

Fyrri greinEldri borgarar í Árborg fá hringingu frá símavini
Næsta greinOkkar neysla – okkar ábyrgð