Ungir Selfyssingar lágu fyrir Víkingum

Selfyssingar hófu keppni í Lengjubikar karla í knattspyrnu í kvöld með fjörugum tapleik gegn Víkingi Reykjavík. Lokatölur í Egilshöllinni voru 3-1.

Ingi Rafn Ingibergsson kom Selfyssingum yfir eftir rúmlega hálftíma leik eftir sendingu frá Ingólfi Þórarinssyni. Víkingar jöfnuðu metin undir lok fyrri hálfleiks og staðan var 1-1 í leikhléinu.

Strax á fimmtu mínútu síðari hálfleiks fengu Víkingar vítaspyrnu sem tryggði þeim 2-1 forystu og þegar sex mínútur voru eftir ráku Víkingar smiðshöggið á sigurinn þegar fyrrum leikmaður Selfoss, Hjörtur Hjartarson, skoraði þriðja mark þeirra. Þegar þar var komið við sögu voru Víkingar manni færri eftir að leikmaður þeirra hafði fengið rauða spjaldið á 75. mínútu.

Selfyssingar tefldu fram ungu liði í kvöld en tólf af átján leikmönnum liðsins eru fæddir 1993 eða síðar. Markvörðurinn Jóhann Ólafur Sigurðsson spilaði sinn fyrsta leik fyrir liðið síðan í september 2011 og Andy Pew bar fyrirliðabandið í fyrsta sinn.

Víkingur R. 3-1 Selfoss
0-1 Ingi Rafn Ingibergsson (’31 )
1-1 Ívar Örn Jónsson (’43 )
2-1 Andri Steinn Birgisson (’51, víti )
3-1 Hjörtur Júlíus Hjartarson (’84 )
Rautt spjald: Halldór Smári Sigurðsson (’76, Víkingur R. )

Fyrri greinHvergerðingar í miklum ham
Næsta greinÁ skilorð fyrir að stela úr ruslinu