Ungar og uppaldar stelpur drógu vagninn

Körfuboltaveturinn hófst í kvöld með þremur leikjum í Fyrirtækjabikar kvenna. Hamar sótti Breiðablik heim og sigraði 56-62.

„Við byrjum flatar í leiknum og Breiðablik spilaði mjög vel í fyrsta leikhluta. Við náðum að gíra okkur upp í öðrum leikhluta og minnkuðum muninn niður í 6 stig fyrir hálfleik,“ sagði Hallgrímur Brynjólfsson, þjálfari Hamars, í samtali við sunnlenska.is eftir leik.

Breiðablik leiddi 22-11 að loknum fyrsta leikhluta en staðan í hálfleik var 36-30. Hamar gerði svo nánast út um leikinn í þriðja leikhluta þar sem Hvergerðingar skoruðu 25 stig gegn 12 stigum Blika. Þá var staðan orðin 48-55 en lítið var skorað í jöfnum lokaleikhlutanum.

„Í þriðja leikhluta náðum við að stjórna hraðanum í leiknum. Allar stelpurnar eiga hrós skilið. Þær lögðu sig 100% í leikinn í kvöld og framkvæmdu það sem hinn yndislegi þjálfari þeirra lagði fyrir þær. Það var gaman að sjá ungar og uppaldar stelpur úr Hveragerði draga vagninn og ber þar helst að nefna vinkonurnar Jónu Ólafs og Katrínu Eik,“ sagði Hallgrímur ennfremur.

Katrín Eik Össurardóttir var stigahæst hjá Hamri með 14 stig, Sóley Guðgeirsdóttir skoraði 13, Jóna Sigríður Ólafsdóttir 12, Salbjörg Ragna Sævarsdóttir 10, auk þess sem hún tók 9 fráköst og varði 9 skot. Þórunn Bjarnadóttir skoraði 9 stig, Helga Vala Ingvarsdóttir 2 og þær Jóhanna Herdís Sævarsdóttir 1/4 fráköst og Jenný Harðardóttir skoruðu eitt stig hvor.