Undirbúningur hafinn fyrir sjötta keppnisárið

Lið Byko sigraði í Suðurlandsdeildinni á síðasta keppnistímabili. Ljósmynd/Aðsend

Undirbúningur er hafinn fyrir sjötta keppnisárið í Suðurlandsdeildinni í hestaíþróttum í Rangárhöllinni á Hellu. Frábær stemning hefur verið í deildinni síðustu ár og gríðarleg tilhlökkun fyrir framhaldinu komandi tímabili.

Nú er tækifæri til þess að setja saman lið og vera með á komandi keppnistímabili í Suðurlandsdeildinni. Að minnsta kosti tvö sæti eru laus í deildinni þar sem tvö neðstu liðin féllu út eftir tímabilið. Þau lið sem eiga þátttökurétt í deildinni þurfa að staðfesta fyrir 20. október hvort þau muni halda áfram.

Ný lið sem áhuga hafa á að koma í deildina þurfa að skila inn umsóknum fyrir 31. október. Umsókninni þurfa að fylgja staðfest nöfn þriggja áhugamanna og tveggja til þriggja atvinnumanna. Dregið verður úr umsóknum sé umfram eftirspurn. Þau lið sem féllu úr deildinni 2021 geta sótt um aftur og fara í pottinn ásamt nýjum liðum sem sækja um.

Liðin verða áfram skipuð 2-3 atvinnumönnum og 3 áhugamönnum. Á hverju kvöldi keppa 2 áhugamenn og 2 atvinnumenn, nema á lokakvöldinu – þá geta allir keppt. Áhugamaður má keppa sem atvinnumaður en atvinnumaður má ekki keppa sem áhugamaður. Áfram verður Suðurlandsdeildin einungis liðakeppni en þrjú stigahæstu liðin verða verðlaunuð.

Allar spurningar sem og umsóknir vegna Suðurlandsdeildar skulu sendar á rangarhollin@gmail.com.

Fyrri greinJökullinn hopað um 408 metra síðan 2010
Næsta greinÞessi barátta skiptir okkur miklu máli