„Undarleg tilfinning“

„Ég veit ekki hvað maður á að segja. Þetta er undarleg tilfinning en mér líður mjög vel.“

Þetta sagði Lárus Viðar Stefánsson, leikmaður KFR, í samtali við sunnlenska.is eftir jafnteflið gegn KB í Breiðholtinu í kvöld.

„Þetta var bara frábært í kvöld. Það kom upp pínu stress þegar þeir skoruðu þetta draumamark upp í vinkilinn þegar það er hálftími eftir. Þá þurftu þeir bara eitt mark til viðbótar en við kláruðum þetta vel og menn keyrðu sig alveg út,“ sagði Lárus sem var ánægður með karakterinn í reynslulitlu liði KFR.

„KB er búið að vera í þessari stöðu áður en við aldrei þannig að það var kannski eðlilegt að við værum aðeins stressaðir framan af. Það var svipað uppi á teningnum fyrir seinni leikinn gegn Berserkjum í 8-liða úrslitunum. Við erum með ungt og óreynt lið en menn voru klárir í verkefnið þegar flautað var til leiks. Þetta var hörkuleikur í kvöld, fullt af áhorfendum og brjáluð stemmning,“ sagði Lárus og bætir við að árangur sumarsins hafi komið sér á óvart.

„Ég hefði aldrei veðjað á þetta í vor. Aldrei. Ég hefði frekar tippað á mína gömlu félaga í Magna og það hefði verið óskandi að við gætum mætt þeim í næsta leik en því miður gekk það ekki eftir. Við mætum með vængbrotið lið í úrslitaleikinn gegn KV vegna leikbanna en það er allt í lagi, sá leikur er bara bónus. Þetta sumar er búið að vera frábært,“ sagði Lárus að lokum.

brynjolfur_hjorvar070911gk_323803423.jpg
Brynjólfur Þorsteinsson og Hjörvar Sigurðsson fagna ásamt félögum sínum eftir leik. sunnlenska.is/Guðmundur Karl