Umf. Selfoss semur við Jako

Ungmennafélag Selfoss hefur gengið frá samningi við Namo ehf. heildsölu og verslun sem býður upp á Jako íþróttavörumerkið, en Selfyssingar hafa klæðst Errea-fatnaði undanfarin fjögur ár.

Samningurinn, sem nær til aðalstjórnar Umf. Selfoss og allra deilda félagsins, tekur gildi þann 1. maí næstkomandi og er til fjögurra ára.

Í tilkynningu frá félaginu segir að markmið samstarfssamningsins sé að standa saman að sameiginlegu útliti félagsgalla og æfinga- og keppnisfatnaðar hjá Umf. Selfoss. Ennfremur munu aðilar samningsins sjá til þess að verð á fatnaði til iðkenda sé samkeppnishæft en Jako fatnaðurinn mun vera fáanlegur hjá Namo, Smiðjuvegi 74 (gul gata) Kópavogi, ásamt því að fást hjá söluaðila á Selfossi. Ekki hefur verið gengið frá samningi við söluaðila en það verður gert í samráði við Umf. Selfoss.

Í upphafi samningstímans er stærsta sýnilega breytingin sú að frá og með næsta keppnistímabili munu meistaraflokkar Selfoss í knattspyrnu og handknattleik spila í glæsilegum keppnisbúningum frá Jako.

„Það er afar ánægjulegt að hafa komist að samkomulagi við Namo sem leggur upp með að veita skjóta og góða þjónustu. Um leið og við klæðumst búningi Jako viljum við þakka Errea fyrir farsælt samstarf seinustu fjögur árin,“ segir í tilkynningunni.

Fyrri greinHamar steinlá gegn ÍA
Næsta greinBúið að opna Heiðina