Tyghter með sannkallaða tröllatvennu

Astaja Tyghter átti stórleik í dag. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Hamar-Þór vann öruggan sigur á Þór Akureyri í 1. deild kvenna í körfubolta þegar liðin mættust í Þorlákshöfn í dag.

Heimakonur höfðu yfirhöndina allan leikinn en staðan í leikhléi var 40-27. Munurinn jókst enn frekar í seinni hálfleik, helst fyrir tilstilli Astaja Tyghter sem átti sannkallaðan stórleik fyrir Hamar-Þór. Hún skoraði 43 stig og tók 20 fráköst.

Hamar-Þór afgreiddi þetta verkefni af öryggi þannig að það var engin spenna á lokakaflanum en lokatölur urðu 76-54.

Á eftir Tyghter í stigaskoruninni kom Helga María Janusdóttir með 11 stig og Hrafnhildur Magnúsdóttir skoraði 6 stig og tók 10 fráköst, auk þess sem hún átti 6 stoðsendingar.

Hamar-Þór er nú í 5. sæti deildarinnar með 6 stig, að sex umferðum loknum.

Fyrri greinÞrengslavegur lokaður
Næsta greinFótbrotnaði við Geysi