Tvöfaldur sunnlenskur sigur

Sunnlendingar unnu tvöfaldan sigur í sérútbúnum flokki á Sindra torfærunni sem Flugbjörgunarsveitin á Hellu hélt í dag. Ölfusingurinn Snorri Þór Árnason sigraði með 1.511 stig á Kórdrengnum.

Í 2. sæti varð Helgi Gunnarsson frá Þorlákshöfn á Gærunni en hann var 170 stigum á eftir Snorra með 1.341 stig. Daníel G. Ingimundarson varð í 5. sæti á Green Thunder en Benedikt Sigfússon hóf ekki keppni þar sem vélin fór í Hlunknum í morgun.

Í sérútbúnum götubílaflokki varð Sigfús G. Benediktsson í 3. sæti á Snáðanum með 90 stig, en hann ók aðeins inn í 1. braut og hætti svo keppni. Haukur Þorvaldsson hóf ekki keppni vegna vélarbilunar í Jokernum rétt fyrir upphaf keppninnar.

Ívar Guðmundsson leiddi keppni í götubílaflokknum allt þar til í næstsíðustu braut sem var tímabraut. Þá koksaði Kölski á vænum vatnssopa og Ívar féll niður í 4. sætið. Eðvald Orri Guðmundsson varð fimmti í þessum flokki á nýuppgerðum og glæsilegum Pjakknum.

Keppnin heppnaðist afskaplega vel en talið er að áhorfendur hafi verið vel á þriðja þúsund talsins. Keppendur buðu uppá veltur og ýmis skemmtileg tilþrif þannig að af varð hin besta skemmtun.

Sérútbúinn flokkur:
Snorri Þór Árnason, Kórdrengurinn, 1511 stig
Helgi Gunnarsson, Gæran, 1341 stig
Guðbjörn Grímsson, Katla Turbó tröll, 1305 stig
Guðni Grímsson, Kubbur, 998 stig
Daníel G. Ingimundarson, Green Thunder, 960 stig
Elmar Jón Guðmundsson, Heimasætan, 910 stig
Aron Ingi Svansson, Zombie, 827 stig
Svanur Örn Tómasson, Insane, 625 stig
Valdimar Jón Sveinsson, Crash Hard, 585 stig
Ingólfur Guðvarðarson, Guttinn Reborn, 170 stig

Sérútbúinn götubílaflokkur:
Jón Vilberg Gunnarsson, Snáðinn, 1419 stig
Bjarki Reynisson, Dýrið, 240 stig
Sigfús G. Benediktsson, Snáðinn, 90 stig

Götubílaflokkur:
Stefán Bjarnhéðinsson, Kaldi, 1614 stig
Steingrímur Bjarnason, Strumpurinn, 1464 stig
Sævar Már Gunnarsson, Bruce Willis, 1417 stig
Ívar Guðmundsson, Kölski, 1382 stig
Eðvald Orri Guðmundsson, Pjakkurinn, 945 stig


Helgi Gunnarsson í loftköstum í mýrinni á Gærunni. sunnlenska.is/Guðmundur Karl


Ívar Guðmundsson stoppaði nokkrum sentimetrum frá endamarkinu í mýrinni. sunnlenska.is/Guðmundur Karl


Eðvald Orri Guðmundsson á góðri siglingu á Pjakknum. sunnlenska.is/Guðmundur Karl


Áhorfendur voru vel með á nótunum og studdu sína menn dyggilega. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Fyrri greinBarros tryggði sigurinn í blálokin
Næsta greinSunnlensku liðin töpuðu