Tvöfaldur sigur Byko í parafimi

Lið Byko f.v. Maiju Maaria Varis, Árni Sigfús Birgisson, Brynja Amble Gísladóttir, Elin Holst og Sævar Örn Sigurvinsson en einnig er Herdís Rútsdóttir í liðinu.

Lið Byko sigraði í parafimi Suðurlandsdeildarinnar í hestaíþróttum en fyrsta mót vetrarins fór fram í Rangárhöllinni í fyrrakvöld.

Alls voru 56 knapar skráðir til leiks og öttu þeir kappi í 28 pörum. Hvert par skipað einum áhugamanna og einum atvinnumanni. Sjaldan eða aldrei hefur keppni í parafimi verið jafn sterk og hún var í fyrrkvöld, atriðin vel undirbúin og sýningarnar frábærar.

Þau Elin Holst og Sævar Örn Sigurvinsson leiddu eftir forkeppni en það fór svo að liðsfélagar þeirra Brynja Amble og Árni Sigfús Birgisson skákuðu þeim í úrslitunum og sigruðu með frábærri sýningu. Lið Byko var því í 1. og 2. sæti og leiðir því liðakeppnina eftir fyrstu grein.

Heildarniðurstöður verða birtar á Facebooksíðu Suðurlandsdeildar. Næsta keppniskvöld deildarinnar er þriðjudaginn 15. mars þegar keppt verður í fjórgangi.

Fyrri greinJón Ingi sýnir fuglamyndir
Næsta greinBjörguðu álftapari í sjávarháska