Tvö víti í súginn í toppslagnum

Aron Einarsson fær óblíðar móttökur á miðjunni. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfyssingar fóru illa að ráði sínu í sex stiga leik gegn HK í Lengjudeild karla í knattspyrnu á Selfossi í kvöld. HK sigraði 1-2 og fór í toppsætið, sem hefði getað orðið Selfyssinga með sigri.

Selfyssingar voru sterkari í fyrri hálfleik og leikurinn byrjaði vel fyrir þá því Adam Örn Sveinbjörnsson skallaði boltann í mark HK strax á 6. mínútu. Selfyssingar voru áfram ógnandi og eina hættan sem HK skapaði var í föstum leikatriðum. Á 42. mínútu var brotið á Valdimar Jóhannssyni innan teigs og Selfoss fékk víti. Gary Martin steig á punktinn en markvörður HK varði auðveldlega frá honum.

Þetta reyndist Selfyssingum dýrt því HK menn mættu ákveðnir inn í seinni hálfleikinn og voru búnir að jafna metin tíu mínútum síðar. Leikurinn var í jafnvægi í seinni hálfleik og bæði lið áttu álitlegar sóknir en HK komst yfir með virkilega snyrtilegu marki á 69. mínútu. Selfoss herti nú sprettinn og á 82. mínútu var hendi víti í teignum hjá HK. Eftir samningaviðræður Martin og Gonzalo Zamorano var niðurstaðan að sá síðarnefndi fór á vítapunktinn en spyrnan var arfaslök og fór hátt yfir markið. Selfoss reyndi allt hvað af tók að jafna á lokamínútunum en það tókst ekki og stigunum dýrmætu var pakkað niður í íþróttatösku og brunað með þau í Kópavoginn.

HK er með 25 stig í toppsætinu en Selfoss er með 21 stig í 4. sæti.

Fyrri greinEr smeyk við dróna
Næsta greinEndurunnið sjávarplast og bakteríudrepandi handföng