Tvö stór frjálsíþróttamót á Selfossi 2021

Hluti fundarmanna. Eyrún María, sem tók sæti í ráðinu, er lengst til hægri á myndinni. Ljósmynd/HSK

Aðalfundur frjálsíþróttaráðs Héraðssambandsins Skarphéðins var haldinn í Selinu á Selfossi þann 29. september síðastliðinn.

Fundurinn átti að fara fram fyrr á árinu en var frestað vegna COVID-19. Tíu manns mættu á fundinn frá sex aðildarfélögum ráðsins.

Kosið var um þrjú sæti í stjórn ráðsins til tveggja ára. Helgi S. Haraldsson, Sigurður Kristinn Guðbjörnsson og Tinna Björnsdóttir gáfu öll kost á sér til áframhaldandi setu í ráðinu og voru kosin til áframhaldandi starfa. Anna Pálsdóttir gaf ekki kost á sér áfram þrátt fyrir að eiga ár eftir af sínu kjörtímabili. Eyrún María Guðmundsdóttir úr Íþróttafélaginu Dímon tók sæti í ráðinu til eins árs. Guðmunda Ólafsdóttir formaður ráðsins var kosin til tveggja ára á síðasta ári.

Ýmis mál voru rædd á fundinum. Má þar nefna að stefnt er að því að halda héraðsleika fyrir keppendur 10 ára og yngri þann 1. nóvember næstkomandi. Þá var rætt um sumarið 2021 en þá heldur HSK unglingalandsmót á Selfossi auk þess að halda aðalhluta Meistaramót Íslands. Samkvæmt drögum að mótaskrá munu mótin tvö verða haldin með mjög stuttu millibili svo mikið verður um að vera næsta sumar.

Fundargerð aðalfundarins má nálgast á www.hsk.is.

Fyrri greinHafa metnað til að verða leiðandi í landeldi á laxi
Næsta greinÁheitaganga til styrktar Sjóðnum góða